Um okkur
Dag einn í desember mánuði á skrifstofunni snérust allar lífsins áhyggjur um að ekki væri búið að kaupa dagbók fyrir nýja árið sem var í þann mund að ganga í garð. Að sjálfsögðu átti að taka nýja árið með trompi og því ekki seinna vænna en að fara setja sér markmið og skipuleggja. Bærinn var genginn endilangt í leit að hinni fullkomnu dagbók en án árangurs.
Eftir að hafa borið saman dagbækur okkar komumst við að því að við erum báðar algjörir dagbóka pervertar þar sem við höfðum báðar sérkennilega mikinn áhuga á dagbókum. Við vorum sammála um að við ættum erfitt með að finna hina fullkomnu dagbók. Í okkar huga þurfti bókin að vera falleg, fara vel í tösku, auðvelt að skrifa í hana, pláss til að skrifa niður markmið, matarplan fyrir vikuna, æfingaplan o.s.frv.
Já, kröfurnar voru ansi margar! Útfrá því kviknaði sú hugmynd að búa til okkar eigin dagbók sem myndi innhalda alla þessi þætti og meira til. Þrátt fyrir sameiginlega ástríðu fyrir dagbókum erum við með afar ólíkan bakgrunn og gátum því við gerð þessarar bókar nýtt styrkleika hvor annarar á misjöfnum sviðum. Við erum mjög ánægðar með útkomuna og hlökkum mikið til að deila henni með ykkur og vonum við svo sannarlega að þið njótið þess jafnmikið og við að skrifa í dagbókina og að árið muni færa ykkur betri árangur, hvatningu, aukinn kraft og almenna gleði.
Bestu kveðjur,
Erla og Þóra Hrund
Erla Björnsdóttir
Erla Björnsdóttir er sálfræðingur og doktor í líf og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Erla er framkvæmdastjóri Betri svefns og starfar einnig sem sálfræðingur hjá Sálfræðiráðgjöfinni og sem nýdoktor á Landspítala. Erla er gift Hálfdani Steinþórssyni og saman eiga þau fjóra fjöruga syni.
Þóra Hrund Guðbrandsdóttir
Þóra Hrund er með BS gráðu í viðskipta- og markaðssamskiptum frá Háskólanum á Bifröst og nemur nú Stjórnun og stefnumótun í Háskóla Íslands. Hún er eigandi ReykjavikNow og starfar einnig hjá CP Reykjavík sem verkefnastjóri í viðburðadeild. Þóra Hrund er í sambúð með Ólafi Páli Einarssyni og eiga þau saman einn son.